is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskólinn á Akureyri > Hug- og félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/1597

Titill: 
  • 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 : brot gegn valdstjórninni - réttindi lögreglumanna og bótakröfur þeirra
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Frumvarp til laga með breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19 frá 12. febrúar 1940, með síðari breytingum, var lagt fyrir á 133. löggjafarþingi Alþingis 2006-2007. Frumvarpið var samið að tilhlutan dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar og var meginmarkmið frumvarpsins að bæta starfsumhverfi lögreglumanna. Með hliðsjón af breyttu samfélagi þótti mikilvægt að tryggja það að opinberir starfsmenn gætu sinnt skyldustörfum sínum í þágu almannaheilla án ólögmætra hindrana eins og ofbeldis eða hótunum um ofbeldi eða neitun um að hlýða skipun lögreglu á vettvangi. Ákvæði 106. gr. hgl. miðar að því að greiða fyrir störfum opinberra embættismanna að viðlagðri refsiábyrgð þeim til handa sem brjóta gegn fyrirmælum ákvæðisins. Er þá horft til þess að refsivernd sú sem opinberir starfsmenn njóta í störfum sínum verður að efni til að vera í réttu hlutfalli við það heilsu- og líkamstjón sem leiðir af eðli starfsins. Fyrir breytingu á 106. gr. hgl. árið 2007 var ekki gerður greinarmunur á eðli þeirra starfa sem opinberir starfsmenn höfðu með höndum. Þannig var ekki gerður greinarmunur á því hvort að opinberir starfsmenn hefðu heimild til líkamlegrar valdbeitingar, heldur var talið að refsimörkin fyrir 106. gr. hgl. ættu að vera þau sömu fyrir brot sem beindust gegn opinberum starfsmanni.
    Með lögregluvaldi er átt við það vald sem lögreglunni einni er falið til að gefa fyrirskipanir og til að grípa til aðgerða gagnvart þegnunum, með valdbeitingu ef nauðsynlegt er. Ákvæði um brot gegn valdstjórninni er að finna í XII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en hugtakið valdstjórn er hvorki skilgreint í almennum hegningarlögum, né í greinargerðum með lögunum. Þó er ljóst, með vísan til almennrar orðskýringar að hugtakið eigi við um æðstu stjórn ríkisins – handhafa ríkisvaldsins. Í 1. mgr. 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er mælt fyrir um að ríkið haldið uppi starfsemi lögreglu. Hlutverk og skyldustörf lögreglu eru margþætt og viðamikil. Mikilvægt er að sú starfsemi sem lögregla hefur með höndum gangi greiðlega fyrir sig og að almennir borgarar sýni störfum lögreglumanna skilning og velvilja og að lögreglumenn séu ekki tálmaðir í störfum sínum. Meginmarkmiðið með tilkomu breytinga á ákvæði 106. gr. hgl. var að tryggja starfsemi lögreglu enn betur en því sem áður var.
    Brot á 106. gr. hgl. er samhverft brot, sem þýðir að lög lýsa verknað refsinæman án tillits til afleiðinga og að ekki þurfi að sýna fram á að tjón hafi hlotist af eða aðra afleiðingu til þess að sakfella megi fyrir brotið. Opinberir starfsmenn njóta refsiverndar samkvæmt XII. kafla hegningarlaganna er þeir gegna störfum sínum. En dómaframkvæmdin vegna brota á 106. gr. hgl. ber með sér að refsiramminn er ekki nýttur nema að takmörkuðu leyti. Þó hefur orðið viss stefnubreyting varðandi þessi brot, þar sem það virðist færast í aukana að brot séu heimfærð undir önnur ákvæði hegningarlaganna en einungis 106. gr. hgl. þar sem ljóst er að téð lagagrein muni ekki nægja til að tæma sök með tilliti til grófleika brots. Hótun er tjáning hugsunar og samkvæmt fræðum refsiréttar getur hótun annað hvort verið sjálfstætt brot og átt þá undir 233. gr. hgl. eða hluti af verknaðaraðferð en bæði eru til þess fallin að vekja ugg hjá viðtakanda eða öðrum og er að því leyti brot gegn friðhelgi einkalífs. Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu árið 1992 að engin ástæða væri til að undanskilja frá hugtakinu ,,einkalíf” þætti í atvinnustarfsemi eða atvinnulífi einstaklings enda væri það svið þar sem meirihluti fólks stofnaði til margvíslegra sambanda við umheiminn og ekki væri hægt að greina á milli þátta sem tengdust einkalífi og annarra þátta sem væru aðeins af starfslegum toga. Þannig eru þær aðdróttanir, hótanir og áreiti sem heyra undir 106. gr. hgl. og 233. gr. hgl., sem lögreglumenn þurfa að líða fyrir starfa sinn, brot á friðhelgi einkalífs þeirra og fjölskyldna. 1. málsl. 1. mgr. 106. gr. hgl. á sér hliðstæðu í 211.-214. gr., 217. og 218. gr. hgl., en þar er andlag ofbeldis, líf, líkami, limir og heilsa manna. Þó getur það vel komið til álita samkvæmt nýlegum niðurstöðum héraðsdómstóla, hvort að atlögur manna sem t.a.m. felast í líkamlegu ofbeldi gagnvart lögreglumanni, t.d. atlaga að lögreglubifreið, feli í sér ofbeldi, hótun um ofbeldi eða eignaspjöll.
    Vangaveltur hafa verið uppi um hvort þörf sé á að kalla oftar sérstaklega eftir bótakröfum fyrir lögreglumenn. Markmið og hlutverk skaðabótareglna er skilgreint á tvennan máta, annars vegar er um að ræða sérstakt varnaðarhlutverk og hins vegar er um að ræða almennt varnaðarhlutverk skaðabótareglna. Sérstöku varnaðaráhrifin hafa þau áhrif að sá sem veldur tjóni, þarf að greiða skaðabætur sem gerir það að verkum að hann mun reyna að forðast frekari tjón í framtíðinni, reynslunni ríkari. Þessi varnaðaráhrif hafa beinlínis ekki áhrif á aðra, heldur einungis fyrir tjónvald sjálfan. Hin almennu varnaðaráhrif eiga eflaust betur við líkamstjón lögreglumanna í starfi í framhaldi af broti á 106. gr. hgl. En almenn varnaðaráhrif gera það að verkum að vitneskja manna ein og sér um að mögulegt sé að krefjast bóta úr hendi tjónvalds samhliða broti á 106. gr. hgl sem hefur í för með sér líkamstjón fyrir lögreglumann, jafnvel minniháttar, komi í veg fyrir ofbeldi gegn lögreglumönnum í starfi. Þykir þetta einkar áhugaverð leið til að brýna fyrir samfélaginu að brot á 106. gr. hgl. fela ekki einungis í sér refsiviðurlög heldur getur háttsemin mögulega einnig haft í för með sér fébótarábyrgð fyrir tjónvald samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993.

Styrktaraðili: 
  • Landssamband lögreglumanna
Athugasemdir: 
  • Verkefnið er lokað til jan 2013
Samþykkt: 
  • 8.7.2008
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/1597


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
ML ritgerð lokaskjal.pdf529.26 kBOpinnPDFSkoða/Opna