is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27115

Titill: 
  • Gildi munnlegra samninga og formfrelsi löggerninga
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Það að menn deili um merkingu orða er ekkert nýtt af nálinni. Deilt er um hvað nákvæmlega er sagt og síðan hvaða merking hafi falist í orðunum. Með þessari ritgerð er ætlan höfundar að fjalla um gildi munnlegra samninga og hvort þeir séu í raun jafngildir skriflegum samningum. Samkvæmt grundvallarreglum samningaréttar ríkir formfrelsi er varðar löggerninga. Í íslenskri löggjöf er víða að finna mikilvægar undantekningar á þeirri reglu. Hér verður meðal annars fjallað um af hverju löggjafinn hefur gripið til þess ráðs að lögfesta ákvæði þess efnis að löggerningar skuli vera skriflegir og á hvaða sviði þeir löggerningar liggja. Kannað verður hvort meginregla samningaréttar um formfrelsi löggerninga sé á undanhaldi og hvort þróunin sé í þá átt að krefjast skriflegra eða rafrænna samninga í framtíðinni. Hafa nútíma viðskiptahættir, líkt og staðlaðir og rafrænir samningar, sem færst hafa í vöxt á undanförnum áratugum, þau áhrif að löggjafinn þurfi að grípa til þess ráðs að endurskoða þau lög er ríkja á sviði samningaréttar á Íslandi þar sem notkun slíkra samningsforma hafa vakið upp margvísleg lögfræðileg álitaefni?
    Til þess að komast að niðurstöðu um þau álitaefni sem getið er hér að framan þarf að fjalla um það sem hér á eftir kemur. Umfjölluninni er hagað á þann hátt að í 2. kafla ritgerðarinnar verður farið yfir stöðu samningaréttar innan fræðakerfisins og þýðingu hans. Kynntar verða til sögunnar grundvallarreglur samningaréttar sem eru skuldbindingargildi samninga, samningsfrelsi og síðast en ekki síst formfrelsi löggerninga. Í 3. kafla verða íslensku samningalögin skoðuð og farið yfir þróun þeirra og þá sérstaklega með áherslu á þróun formskilyrða löggerninga. Fjallað verður um samninga og stofnun þeirra í 4. kafla og skoðað hvaða lágmarksskilyrðum samningur þarf að búa yfir svo um samning sé að ræða. Loforð, tilboð, samþykki og gerhæfi eru allt hugtök sem ekki er hægt að sleppa að fjalla um þegar kemur að því að skoða stofnun samninga enda meðal grundvallarhugtaka samningaréttar. Í 5. kafla verður þeirri spurningu varpað fram hvort og þá hvenær samningur er kominn á. Fjallað verður sérstaklega um hver vilji samningsaðila var við gerð samningsins. Var aðeins um að ræða yfirlýsingu þess efnis að gera samning síðar eða var vilji til staðar þá og þegar til þess að gera skuldbindandi samning? Skriflegir samningar sem eru ein mikilvægasta undantekningin á formfrelsi löggerninga og hver réttaráhrifin eru þegar formskilyrða er ekki gætt er umfjöllunarefni 6. kafla. Tekin verða nokkur dæmi um löggerninga sem lagaákvæði kveða á um að skuli vera skriflegir, til dæmis samningar um kaup á fasteignum, kaupmála hjóna og erfðaskrár. Þegar fjallað er um munnlega samninga og þá meginreglur í samningarétti er varða formfrelsi koma upp ýmsar vangaveltur um gerð samninga og í því sambandi verður fjallað sérstaklega um rafræna samninga í kafla 7, sem er samningsform sem er frekar nýtt af nálinni og fellur hvorki beint undir skriflega né munnlega samninga. Gríðarleg aukning hefur verið undanfarna áratugi á notkun staðlaðra samninga og verður sérstaklega fjallað um þá gerð samninga og þegar munnlegar breytingar eru gerðar á slíkum samningi í sama kafla. Mikið reynir á þær réttarfarsreglur sem gilda um sönnun í einkamáli þar sem skuldbindingargildi, stofnun og efni munnlegs löggernings stendur og fellur með því hvort að hægt sé að færa sönnur fyrir þeirri staðhæfngu sem deilt er um í dómsmáli og verður einnig fjallað um þær reglur í 8. kafla ritgerðarinnar.

Samþykkt: 
  • 5.5.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/27115


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Auðný Vilhjálmsdóttir (1).pdf936.03 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
skemma undirskrift.pdf478.08 kBLokaðurYfirlýsingPDF